Þjóðleiðin um Odda

Segja má að frægðarsól Oddastaðar hafi skinið skært um aldir m.a. vegna þess að þjóðbrautin um Suðurland lá um bæjartraðirnar í Odda. Helgi Þorláksson fjallar um þessi mál í riti sínu „Gamlar götur og goðavald“ þar sem greint er frá fornum leiðum og völdum Oddaverja í Rangárþingi.

Oddabrú

Það hefur lengi verið kappsmál hjá Rangæingum að koma á vegtengingu innan Rangárvalla þannig að Bakkabæir sem tilheyra sveitarfélaginu Rangárþingi ytra, og þá um leið önnur byggð austan Þverár m.a. í Landeyjum, komist í beina vegtengingu með brú yfir Þverá hjá Odda. Gert er ráð fyrir þessum vegi í gildandi aðalskipulagi Rangárþings ytra.

 „Það þarf að koma Odda í þjóðleið og þá er horft til nýrrar brúar“

„Við þurfum að efla Odda sem ferðamannastað og til að gera eitthvað í því þá  er brúin afar  mikilvæg. Hún býr til nýja hringleið“

„Við væntum mikils af brúargerðinni því hún muni efla Odda“

……..frá þátttakendum í Oddastefnu 2016

Kannski var Matthías Jochumsson fyrstur til að benda á nauðsyn þess að brúa Þverá við Odda.  Matthías yrkir um sóknina sína sem var víðfeðm og ekki alltaf auðveld yfirferðar – fyrir prestinn á hestbaki – meðal annars um óbrúaðar ár að fara.

Brauðið erfitt er

áin kölluð þver

girðir vesturgrand

gjarðaval á sand

Rangár rífa lönd

rétt á hvora hönd

yfir þær ég á

alla vega frá

leið með lífsins orð

líka þvera storð

upp um allan völl

undir vatnafjöll

þar sem Hekla há

hefir tindinn blá

upp við sól að sjá

og syngur gloríá!

utg09_1

Brúun Þverár við Odda er mikilvægt framfaramál. Að koma þessari leið í gagnið er mikið öryggisatriði ef kemur til mikilla flóða vegna eldsumbrota í jöklum og rýma þarf skyndilega á þessu svæði en sú hætta er ávallt yfirvofandi eins og nýleg dæmi sýna. Lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur talað mjög sterkt fyrir þessu sem og almannavarnir héraðsins. Mörg fleiri rök má færa fyrir slíkri vegtengingu en öryggisþátturinn er veigamesta atriðið. Til þess að þetta geti orðið þarf að koma brú yfir Þverá en mjög einfalt er að tengja veg við slíka brú þar sem um er að ræða afar heppilegt vegstæði og vegurinn stuttur. Með þessu tengjast Bakkabæir Rangárvöllum á eðlilegri hátt og í samræmi við það sem áður var, svæðið verður tengt sem heild og samgöngur mun betri innan héraðs. Þá má nefna að með þessu myndi álag á Landeyjaveg dreifast verulega enda þá komið bundið slitlag nánast alla leið á Bakkabæi um Oddaveg en viðhald á Bakkabæjavegi hefur reynst þungt í gegnum árin og vegurinn oft slæmur yfirferðar. Vegalengd frá væntanlegu brúarstæði að Hellu er 11.5 km og styttir þessi framkvæmd því leiðina um 15 km. Þess má geta að sama vegalengd er á Hvolsvöll frá fyrirhuguðu brúarstæði á Þverá hvort heldur sem ekið er um Landeyjaveg eða Oddaveg (13.5 km) nema hvað bundið slitlag er á 11.5 km um Oddaveg en einungis 4 km ef ekið er núverandi leið frá Bakkabæjum. Þá mætti nefna að með þessu bættust við fjölbreyttari möguleikar fyrir ferðamenn, en gríðarlegur vöxtur er í ferðaþjónustu á þessu svæði, og brýnt að finna leiðir til að dreifa álagi á samgöngukerfi sem ferðamannastaði. Nefna má að með þessari vegtengingu yrði hinn sögufrægi Oddi aftur í alfaraleið líkt og á tímum Oddaverja. Þá skiptir einnig máli að Bakkabæir eru í Oddasókn og eiga því aftur greiða leið í sína sóknarkirkju og prestur til sóknarbarna sinna. En leiðin frá Odda að Bakkabæjum er 25 km í dag og um aðrar sóknir að fara, ef miðað er við miðbik Bakkabæja t.d. Þúfuveg, en verður þá 2 km við þessa breytingu.
Dýrasti hluti þess að koma á þessari vegtengingu er brú yfir Þverá hjá Odda og sjálfsagt meginskýring þess að ekki hefur verið ráðist í þessa framkvæmd fyrr. Árið 2016 fengust loks fjármunir til að hefja verkið, á fjárlögum 50 m, auk þess sem sveitarfélagið Rangárþing ytra var tilbúið að leggja verkefninu lið þannig að það yrði að veruleika. Vegaframkvæmdirnar eru samstarfsverkefni sveitarfélagsins og Vegagerðarinnar skv. sérstökum samningi þar um. Öll hönnunarvinna er lögð til af Vegagerðinni. Fyrsti hluti verksins var boðinn út í lok árs 2016 og var samið við verktaka um framleiðslu á niðurrekstrarstaurum fyrir brúnna sem síðan voru reknir niður af brúarflokki vegagerðarinnar vorið 2017. Næstu áfangar hafa síðan verði í undirbúningi en vonir standa til að aka megi um hina nýju vegtengingu vorið 2018.utg09_2

Gönguleiðir

utg09_3Áhugavert væri að skilgreina gögnuleiðir út frá Odda – bæði styttri og lengri. Þar mætti sjá fyrir sér gönguleiðir í byggð sem hefðu sterka sögulega skírskotun. Oddi – Keldur – Njáluslóðir. Einnig mætti hugsa sér að marka sérstaka gönguleið í áföngum alla leið frá gamla verslunarstaðnum á Eyrarbakka, meðfram sjónum og yfir á Sandhólaferju og áfram yfir neðanverð holtin fyrir neðan Ás. Þetta gæti verið gönguleið í áföngum, yfir á Odda og síðan áfram þjóðbraut yfir Þverá eða Eystri Rangá og áfram austur yfir Markarfljót. Gera þarf kort yfir gamlar gönguleiðir út frá Odda. Þar er bók Helga Þorlákssonar geysilega mikilvæg heimild.

Hjólastígar

Spennandi væri að koma upp góðri hjólaleið frá Hellu, í gegnum Aldamótaskóg, yfir Hróarslæk og að Odda með möguleika að hjóla áfram yfir Oddabrú og niður í Landeyjar.

 utg09_4

  Reiðleiðir

Reiðleiðin hjá Odda og yfir Oddabrú og áfram niður „Bakkana“ sem eru  líklega bestu reiðgötur á Íslandi að þeim þekktustu meðtöldum.

utg09_5