Samþykktir Oddafélagsins

 1.gr.

Félagið heitir Oddafélagið, samtök áhugamanna um endurreisn menningar- og fræðaseturs að Odda á Rangárvöllum. Heimili þess er í Odda á Rangárvöllum og varnarþing í Rangárvallasýslu.

2.gr.

Tilgangur félagsins er að gera Odda að miðstöð menningar á nýjan leik með áherslu á sögu staðarins og mikilvægi hans um aldir. Fræðastörf á vegum félagsins beinast bæði að alþjóðlegum vísindum og fræðslu til almennings með fjölbreytilegum hætti eftir því sem henta þykir og stjórn ákveður.  Félagið mun leita samstarfs við einstaklinga, samtök og stofnanir þegar ástæða er til.

3.gr.

Ekki má selja eða láta af hendi eignir félagsins fastar eða lausar nema andvirðinu sé beinlínis varið til eflingar menningar- og fræðastarfi hliðstætt því sem kveðið er á um í 2. gr. Verði félagið lagt niður skal eignum þess varið á sama hátt.

4.gr.

Aðalfund félagsins skal halda í maí ár hvert í tengslum við s.k. Oddastefnu, árlegt málþing Oddafélagsins, haldið sem næst Sæmundardegi, dánardegi Sæmundarfróða, 22. maí. Hann skal boðaður skriflega með viku fyrirvara hið minnsta. Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum nema ef um lagabreytingar er að ræða sbr. 6. grein. Kosning skal vera skrifleg ef þess er óskað á fundinum.

Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

  1. Skýrsla stjórnar
  2. Reikningar félagsins.
  3. Umræður um skýrslu og reikninga. Hvorttveggja borið upp til samþykktar.
  4. Kosning stjórnar.
  5. Kosning tveggja skoðunarmanna.
  6. Ákvörðun um árgjald.
  7. Önnur mál.

5.gr.

Í stjórn eru kosnir  fimm menn í aðalstjórn og tveir til vara. Stjórnin skiptir með sér verkum. Kjörtímabil stjórnar er 2 ár. Stjórnin kemur saman minnst tvisvar á ári og boðar formaður til fundar. Á stjórnarfundum nægir einfaldur meirihluti atkvæða til samþykkis. Hlutverk stjórnar  er að móta stefnu félagsins, gera starfsáætlun og hrinda henni í framkvæmd.

6.gr.

Lagabreytingar geta aðeins orðið á aðalfundi. Tillögur til lagabreytinga skulu kynntar í fundarboði og til þess að þær öðlist gildi þarf að samþykkja þær með minnst 2/3 hluta greiddra atkvæða. Sömu reglur gilda um þá ákvörðun að leggja félagið niður.

7.gr.

Félagsmenn geta allir orðið sem þess óska. Þeir einir hafa atkvæðisrétt sem hafa greitt árgjald fyrir aðalfund. Félög og stofnanir geta átt styrktaraðild að félaginu.

 

Samþykktir þessar byggja á stofnskrá félagsins sem  samþykkt var í þessari mynd á aðalfundi Oddafélagsins 2. febrúar 1992.

 

Þannig samþykkt á aðalfundi Oddafélagsins 27. maí 2017