Heim að Odda

Velkomin á heimasíðu Oddafélagsins. Hér er safnað saman ýmsu upplýsandi um starfsemi félagsins. Við erum samtök áhugafólks um endurreisn hins sögufræga fræðaseturs að Odda á Rangárvöllum. Viltu leggja okkur lið? Okkur vantar fleiri liðsmenn sem deila sömu hugsjón – vinsamlega sendu okkur póst ef þú vilt ganga í félagið eða leita frekari upplýsinga.

Í nýrri sóknaráætlun fyrir hinn forna og nýja menningarstað Odda á Rangárvöllum er gert ráð fyrir þremur meginstefum: Oddarannsóknin, Þjóðleiðin um Odda og Fróðasetur í Odda. Hvert stef inniheldur síðan nokkur verkefni sem sumum hverjum hefur þegar verið hrint í framkvæmd s.s. Oddarannsókninni. Í sóknaráætluninni er mikil áhersla lögð á menningu og viðburði sem geta haldið nafni Odda á lofti og þannig stuðlað að því að kynna stórmerka sögu staðarins sem samofin er sögu hérðsins og raunar þjóðarinnar. Áætlað er að starfsemi undir samheitinu Fróðasetur í Odda geti snúið að rannsóknum, fræðaþingum, fyrirlestrum, námskeiðum, útgáfu og menningartengdum viðburðum auk uppbyggingar á aðstöðu.

Með því að leggja rækt við Oddastað erum við að halda á lofti sögu okkar og vöggu menningar – einu okkar þekktasta höfuðbóli.