Fróðasetur í Odda

Rannsóknir, fræðaþing, fyrirlestrar, námskeið og útgáfa

utg09_III1„Sæmundur fróði og  Ari fróði eru fyrstu þekktu íslensku rithöfundarnir. Sæmundur skrifaði sögu Noregskonunga á latínu sem nú er glötuð. Einnig er vitnað til hans í Landnámabók.  Sæmundaredda er kennd við Sæmund fróða því ýmsir töldu hann höfund verksins, en einnig er hún nefnd Codex Regius (þ.e. Konungsbók) því Brynjólfur Sveinsson biskup (1605-1675) gaf Friðriki III Danakonungi handritið, sem afhent var Íslendingum árið 1971.  Í upphafsorðum Íslendingabókar getur  Ari fróði þess að hann hafi sýnt ritið þeim Sæmundi presti, Þorláki Skálholtsbiskupi Runólfssyni og Katli Þorsteinssyni Hólabiskupi.  Þannig hefur Sæmundur verið talinn jafningi biskupanna að mennt og jafnvel virðingu.  Eins kemur fram hjá Ara, að Sæmundur átti þátt í  setningu tíundarlaganna, ásamt Gissuri biskupi Ísleifssyni og Markúsi Skeggjasyni lögsögumanni árið 1096-1097.   Það var einnig að ráði Sæmundar og Össurar erkibiskups, að Ketill biskup og Þorlákur biskup settu Kristnirétt eldri árin 1122-33. Sæmundur fróði var því bæði einn voldugasti og lærðasti höfðingi landsins.“

……Ingibjörg Ólafsdóttir 2016

 

„Þess er getið í fornum heimildum að skóli hafi verið í Odda.  Þó verður þess að gæta að tæpast er um að ræða skóla í þeirri merkingu sem nútímamenn leggja í það orð. Væri því e.t.v. réttara að tala um fræðasetur.  Með kristnitöku skapaðist þörf fyrir menntun innlendrar prestastéttar.  Ætla má að þar sem Oddaverjar höfðu yfir fjölda kirkjustaða að ráða hafi menntun presta verið þeim mikið hagsmunamál. Í Þorlákssögu helga segir frá því, að Þorlákur hafi numið hjá Eyjólfi Sæmundssyni presti í Odda, sem var sonur Sæmundar fróða, en fræðasetur í Odda er talið hafa staðið fram á  13. öld. Er almennt talið að sonur Jóns Loftssonar, Sæmundur (d. 1222) hafi uppfrætt unga menn í Odda síðastur manna. Þó er hugsanlegt að sonur hans, Haraldur, hafi haldið því starfi eitthvað áfram.“

……Ingibjörg Ólafsdóttir 2016

Efla þarf samstarf við ýmsar stofnanir og samtök. Sérstaklega mikilvægt er að rækta samstarfið við Háskóla Íslands en einnig þarf að huga sterklega að samstarfi við erlenda háskóla, bæði á norðurlöndum og einnig t.a.m. í Frakklandi (Sorbonne?) Samstarf við Háskólafélag Suðurlands og Fræðslunet Suðurlands blasir við og þar mætti t.d. sjá fyrir sér að Oddastefna væri árlegt samstarfsverkefni. Þá er nauðsynlegt að eiga traustar tengingar og samvinnu við Gunnarsholt og Skóga. Efla þarf hverskyns samstarfi við Reykholt með Snorra Sturluson sem hina augljósu tengingu. Samstarf við fyrrgreinda aðila væri ekki hvað síst á sviði fræðastarfs og námskeiðshalds og ekki má gleyma hinni mikilvægu tengingu við Njáluslóðir. Til er stofnun Sæmundar fróða við Háskóla Íslands – spyrja má hvort þar séu tækifæri til samstarfs. Ekki má gleyma því að mikilvægt er að sóknarnefnd, kirkjan og sveitarstjórn taki þétt höndum saman og slái skjaldborg um Oddastað.

Ýmsar hugmyndir sem mætti útfæra m.a.

  • Suðurstrandasetur
  • Rannsókn á sögu Odda og fornminjum
  • Náttúrufræði Oddastaðar, fuglar, gróður….
  • Saga eiginkvenna (og karla) presta í Odda.
  • Örnefnakort af Oddastað – Örnefnaganga

Aðstaða og umhverfi

„Í Odda þarf að vera aðstaða fyrir fræðifólk, t.d. sagnfræðinga til dvalar í einhverjar vikur með fræðandi og uppbyggjandi fyrirlestrum á meðan á dvöl stæði„

Oddastefna 2016

Sæmundarstofa þarf að rísa. Gæti verið myndarlegur salur – timburbygging í tengslum við núverandi safnaðarheimili. Móttaka, upplýsingar, veitingar – myndi nýtast við stærri athafnir í Odda.

Byggja þarf upp kotin hjá Odda, mætti hugsa sér að þau myndu vera uppistaðan í eins konar „Friluftsmuseum“ þar sem sýnd væru hýbýli hjáleigufjölskyldunnar, fátæka mannsins á Íslandi – þakið var heyjað!

Koma þarf upp greinargóðum merkingum og söguskiltum í Odda og á leiðinni þangað.

„Sagan á að vera í öndvegi“

„Vernda þarf kirkjuna og prestssetrið í Odda. Þar þarf að vera búandi prestur í Odda og kirkjan á að vera í Odda“

„Aðgengið að Gammabrekku þarf að bæta og styrkja“

„Umhverfið í Odda þarf að vernda – engan ferðaþjónustuiðnað“

 „Saga staðarins – koma upp merkingum“

Oddastefna 2016

 

 

Menning og viðburðir

Koma þarf upp minnisvarða um þjóðskáldið Matthías Jochumsson í Odda og Snorra Sturluson á uppvaxtarárum sínum í Odda.

Í gegnum tíðina hafa komið fram hugmyndir um samningu leikþáttar og tónverks um Sæmund fróða.

Tónlist í Odda – Sumar í Odda

utg09_III2

Oddahátíð

Leggja þarf grunn að árlegri menningarsamkomu m.a. til að vekja athygli á málefnum Odda og mikilvægi staðarins um aldir fyrir sögu þjóðarinnar – Oddahátíð – sem gjarnan má halda að sumri til. Líta má til hliðstæðna og hugmynda frá Skálholts-, Hóla-, og Reykholshátíðum sem haldnar eru hvert sumar þar sem lögð er áhersla á m.a. tónlist og annað menningarefni. Þessar hátíðir eru allar með þungamiðju í kirkjumenningu en ekki er nauðsynlegt að fylgja þeirri línu alfarið heldur mætti skoða breiðari skírskotun. Stefna ber að því að halda fyrstu Oddahátíðina sumarið 2018 og leggja þar áherslu á sjálfstæðisafmæli Íslensku þjóðarinnar með tengingu við sögu Odda sem eina mikilvægustu rót íslenskrar menningar – „frá Sæmundi til sjálfstæðis“.