Færslusafn fyrir flokkinn: Ýmsar fréttir

Óskabyrjun á Oddarannsókn

gjóskufræðingurMiðvikudaginn 6. júní 2018 mætti Kristborg Þórsdóttir ásamt fólki sínu til að hefja fornleifarannsóknir í Odda með áherslu á Sæmundarhellana svokölluðu við Langekru. Og hvílík byrjun á uppgrefti – strax á fyrsta degi fundust mannvistarleifar og ummerki um forna bústaði. Á öðrum degi var árangurinn enn ótrúlegri og verður betur greint frá því á næstu dögum. Hið mikla verk er hafið, að „Vekja úr mold – hina sögustóru fold“

Endurreisn Oddastaðar

Friðrik-Erlings-sv_portrettSvo hefst grein Friðriks Erlingssonar í nýjasta Goðasteini:

„Flestum ber saman um að Oddi á Rangárvöllum hafi verið vagga íslenskrar menningar og fræða á elleftu og tólftu öld. Hann var mennta- og uppeldisstofnun höfðingjastéttar og vísindamanna í sagnfræði, lögfræði, fornfræði og bókmenntum, auk þess að vera miðstöð fyrir evrópska hámenningu á miðöldum á Íslandi. Veldi Oddaverja hófst þegar Sæmundur fróði kom heim frá námi í Frakklandi (Þýskalandi?) um 1080 og því lauk 1264 þegar Gissur jarl lét hálshöggva Þórð Andrésson, Sæmundarsonar, eftir misheppnaða aðför Oddaverja að Gissuri í þeim tilgangi að losa um tök Noregskonungs á Íslandi. Og nú hyllir undir spennandi tíma þegar við nútímamenn, fyrir tilstilli fornleifarannsókna, fáum hugsanlega að skyggnast aftur í aldirnar og sjá hvernig umhorfs var á þessu merka höfuðbóli þegar sól þess reis hvað hæst.“

Meira í Goðasteini hinu frábæra hérðasriti Rangæinga sem kom út núna á dögunum.

FRÉTTAPISTILL 31. DESEMBER 2017

p1

Kæri Oddafélagi,

Það stefnir í spennandi starf á vegum Oddafélagsins á næstu misserum og margt á prjónunum. Skemmst er að minnast fjörlegrar Oddastefnu síðasta vor þar sem greint var frá nýrri stefnumörkun í kjölfar þess að félagsmenn fóru á mikið hugarflug í þeim tilgangi að greina mikilvægustu viðfangsefni félagsins til framtíðar litið. Stærsta verkefnið hér eftir sem hingað til er að „Gera Odda að miðstöð menningar og fræða á nýjan leik“ og „vekja úr mold hina sögustóru fold“.

Vigdís er verndari félagsins

p2Þau tíðindu urðu á Sæmundarstund sem haldin var við Háskóla Íslands í  mars á þessu ári að tilkynnt var um að Vigdís Finnbogadóttir fyrrv. forseti er verndari Oddafélagsins. Er það geysilegur heiður fyrir félagið og ómetanlegt að eiga stuðning Vigdísar og velvilja að í baráttunni fyrir eflingu Odda á Rangárvöllum. Erum við félagsmenn Vigdísi ákaflega þakklát fyrir þennan mikla stuðning.

Oddarannsóknin kemst á skrið

Í byrjun júní samdi Oddafélagið við Fornleifastofnun Íslands um að vinna áætlun til næstu ára um fornleifarannsóknir í Odda á Rangárvöllum. Kristborg Þórsdóttir fornleifafræðingur var fengin til að stýra þessu verki sem hún skilað af sér með sóma á haustdögum. Áætlunin liggur fyrir í formi skýrslu þar sem verkefni eru skilgreind og tímasett en áætlunin tekur til áranna 2018-2020. Meðal verkefna sem ráðast á í er uppgröftur hinna frægu Nautahella Sæmundar, kortlagning gjóskulaga auk  margháttaðra rannsókna á Oddastað með hinum fjölbreyttu aðferðum fornleifafræðinnar, kjarnaborun, ómsjármælingum, segul- og viðnámsmælingum. Þá verður mikil áhersla lögð á fræðslu- og kynningu samhliða rannsóknum og þannig er áætlað að koma á fót næsta sumar s.k. Fornleifaskóla unga fólksins í Odda. Þess má geta að Oddafélagið hlaut fjárstyrki frá Samtökum Sunnlenskra Sveitarfélaga og Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra til þess að vinna áætlunina sem gáfu verkefninu byr undir báða vængi auk þess sem Uppbyggingarsjóður Suðurlands styrkti fornleifaskólaverkefnið afar myndarlega nú á haustmánuðum. Þá urðu þau tímamót nú í desember að Héraðsnefnd Rangæinga gerðist fjárhagslegur bakhjarl í verkefnum Oddafélagsins. Allt er þetta liður í að tryggja verkefnum eins og Oddarannsókninni brautargengi – næsta vor verður hafist handa.

p4p5

 p3

Upplýsingar um Oddafélagið – þurfum fleiri öfluga liðsmenn

goðasteinn2017Minnt er á heimasíðu okkar www.oddafelagid.net og einnig Fésbókarsíðu félagsins þar sem safnað er því sem tengist félaginu og fréttir af starfinu eru birtar. Þá skal minnt á nýútkomið héraðsrit okkar Rangæinga – Goðastein – en þar er m.a. afar áhugaverð hvatningar- og fróðleiksgrein eftir Friðrik Erlingsson rithöfund og stjórnarmann í Oddafélaginu sem hann nefnir „Endurreisn Oddastaðar“ og forsíðan er af Sæmundi á selnum – hvað annað. Goðastein má eignast með því að senda skilaboð á   gudmundur@fannberg.is.

Hvet ykkur svo til að segja vinum og kunningjum frá starfi Oddafélagsins – það vantar fleiri öfluga liðsmenn. Með því að leggja rækt við Oddastað erum við að halda á lofti sögu okkar – hlúa að vöggu menningar og einu af okkar þekktasta höfuðbóli.

Gleðilegt nýtt ár kæru Oddafélagar

Ágúst Sigurðsson

Nýr Goðasteinn

goðasteinn2017

Það eru alltaf menningarsöguleg tíðindi þegar nýr Goðasteinn – héraðsrit Rangæinga – rennur úr prentsmiðju. Að þessu sinni gleðjast ekki hvað síst Oddafélagar en ritið er að hluta helgað Odda á Rangárvöllum og forsíðan skartar nýrri mynd frá Oddastað af styttunni frægu af Sæmundi  á selnum. Ritstjóri að þessu sinni er Jens Einarsson og gerir hann sögu Odda og mikilvægi þess að halda merki staðarins á lofti að umfjöllunarefni sínu í inngangi. Þar vekur  ritstjórinn máls á því að í Odda eigi Rangæingar hugsanlega stærri fjársjóð en þeir hafi almennt leitt hugann að. Þá er í þessu hefti Goðasteins áhugaverð grein eftir Friðrik Erlingsson rithöfund sem hann nefnir „Endurreisn Oddastaðar“ – þar kennir svo sannarlega margra forvitnilegra grasa. Rétt er að benda áhugasömum á að hægt er að nálgast eintak af þessu vandaða riti hjá KPMG/Fannberg á Hellu. Hægt er að koma í KPMG/Fannberg að Þrúðvangi, hringja í síma 5456227 eða senda póst á  gtomasdottir@kpmg.is .

Fornleifaskóli unga fólksins í Odda

uppsudlogo

 

Uppbyggingarsjóður Suðurlands

 

Í Oddarannsókninni verður frá upphafi lagt mikið upp úr öflugu kynningarstarfi á framgangi rannsókna og niðurstöðum og eins og fram kemur í rannsóknaráætluninni sem unnin var af Fornleifastofnun Íslands í samstarfi við Oddafélagið ofl. þá er stefnt að stofnun Fornleifaskóla unga fólksins í samstarfi við grunnskóla í héraði. Vonir Oddafélagsins og Fornleifastofnunar Íslands standa jafnframt til þess að fornleifarannsóknir í Odda og á Rangárvöllum geti haldið áfram eftir að þessari rannsókn lýkur og verða forsendur fyrir rekstri vettvangsskóla fyrir nemendur í fornleifafræði í Odda kannaðar til hlítar.

Það voru því ákaflega ánægjuleg tíðindi sem bárust um miðjan nóvember sl. þegar úthlutun úr Uppbyggingasjóði Suðurlands voru kunngerð. Þá kom í ljós að sjóðsstjórnin hafði ákveðið að veita Oddafélaginu hæsta menningarstyrkinn að þessu sinni í verkefnið ,,Fornleifaskóli unga fólksins í Odda á Rangárvöllum“. Markmið verkefnisins er að vinna að því að efla menningarstarf barna og ungs fólks. Skólanum er ætlað að vekja athygli þeirra á menningararfi svæðisins. uppsud

Verkefnið er þróunarverkefni og verður unnið í samvinnu með skólum á svæðinu. Það var því stoltur og þakklátur formaður Oddafélagsins sem tók við styrknum og skrifaði undir  samning um verkefnið með Guðlaugu Ósk Svansdóttur ráðgjafa hjá Háskólafélagi Suðurlands í starfsstöð SASS á dögunum. Nú er bara að bretta upp ermar og einhenda sér í verkefnið.

 

Oddarannsóknin skipulögð

oddarannsÞann 1. júní 2017 samdi Oddafélagið við Fornleifastofnun Íslands um að vinna áætlun til næstu ára um fornleifarannsóknir í Odda á Rangárvöllum. Kristborg Þórsdóttir fornleifafræðingur var fengin til að stýra þessu verki sem hún skilað af sér með sóma á haustdögum. Áætlunin liggur fyrir í formi skýrslu þar sem verkefni eru skilgreind og tímasett en áætlunin tekur til áranna 2018-2020. Meðal verkefna sem ráðast á í er uppgröftur hinna frægu Nautahella Sæmundar, kortlagning gjóskulaga  auk margháttaðra rannsókna á Oddastað með hinum fjölbreyttu aðferðum fornleifafræðinnar, kjarnaborun, ómsjármælingar, segul- og viðnámsmælingar. Þá verður mikil áhersla lögð á fræðslu- og kynningu samhliða rannsóknum og þannig er áætlað að koma á fót s.k. Fornleifaskóla unga fólksins í Odda. Þess má geta að Oddafélagið hlaut fjárstyrki frá Samtökum Sunnlenskra Sveitarfélaga og  Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra til þess að vinna áætlunina sem gáfu verkefninu byr undir báða vængi. Kristborg kynnti áætlunina fyrir stjórn Oddafélagsins og sóknarnefnd Oddakirkju á dögunum og er mikil tilhlökkun sem fylgir því að hrinda henni í framkvæmd. Áður en til þess kemur þarf þó að vinna áfram að fjármögnun – nú er að einhenda sér í þau mál en áætlunin gerir ráð fyrir að hefjast handa með rannsóknir næsta vor.

Matthías og sandstormarnir

brauðið erfitt erErindi Árna Bragasonar landgræðslustjóra á Oddastefnu 2017 er nú aðgengilegt á heimasíðu Oddafélagsins. Erindið nefnir Árni „Brauðið erfitt er – Matthías og sandstormarnir“. Í því rekur hann m.a. þá ótrúlegu þróun sem orðið hefur í gróðurfari á Rangárvöllum frá því að þar geysuðu sandstormar í tíð séra Matthíasar undir lok 19 aldar og til dagsins í dag þegar sveitarfélagið Rangárþing ytra er í þann mund að verða mesta skógræktarsveitarfélag landsins. Árni segir m.a. frá þeim gríðarlegu áhrifum sem eldvirkni á svæðinu hefur haft á líf og tilveru í gegnum tíðina. Hann segir frá friðlandinu í Oddaflóðum og hinni mögnuðu Safamýri sem gaf allt að 1.000 kýrfóður á ári hverju og munaði um minna á erfiðum tímum.