Færslusafn fyrir flokkinn: Ýmsar fréttir

Fornleifaskóli unga fólksins í Odda

uppsudlogo

 

Uppbyggingarsjóður Suðurlands

 

Í Oddarannsókninni verður frá upphafi lagt mikið upp úr öflugu kynningarstarfi á framgangi rannsókna og niðurstöðum og eins og fram kemur í rannsóknaráætluninni sem unnin var af Fornleifastofnun Íslands í samstarfi við Oddafélagið ofl. þá er stefnt að stofnun Fornleifaskóla unga fólksins í samstarfi við grunnskóla í héraði. Vonir Oddafélagsins og Fornleifastofnunar Íslands standa jafnframt til þess að fornleifarannsóknir í Odda og á Rangárvöllum geti haldið áfram eftir að þessari rannsókn lýkur og verða forsendur fyrir rekstri vettvangsskóla fyrir nemendur í fornleifafræði í Odda kannaðar til hlítar.

Það voru því ákaflega ánægjuleg tíðindi sem bárust um miðjan nóvember sl. þegar úthlutun úr Uppbyggingasjóði Suðurlands voru kunngerð. Þá kom í ljós að sjóðsstjórnin hafði ákveðið að veita Oddafélaginu hæsta menningarstyrkinn að þessu sinni í verkefnið ,,Fornleifaskóli unga fólksins í Odda á Rangárvöllum“. Markmið verkefnisins er að vinna að því að efla menningarstarf barna og ungs fólks. Skólanum er ætlað að vekja athygli þeirra á menningararfi svæðisins. uppsud

Verkefnið er þróunarverkefni og verður unnið í samvinnu með skólum á svæðinu. Það var því stoltur og þakklátur formaður Oddafélagsins sem tók við styrknum og skrifaði undir  samning um verkefnið með Guðlaugu Ósk Svansdóttur ráðgjafa hjá Háskólafélagi Suðurlands í starfsstöð SASS á dögunum. Nú er bara að bretta upp ermar og einhenda sér í verkefnið.

 

Oddarannsóknin skipulögð

oddarannsÞann 1. júní 2017 samdi Oddafélagið við Fornleifastofnun Íslands um að vinna áætlun til næstu ára um fornleifarannsóknir í Odda á Rangárvöllum. Kristborg Þórsdóttir fornleifafræðingur var fengin til að stýra þessu verki sem hún skilað af sér með sóma á haustdögum. Áætlunin liggur fyrir í formi skýrslu þar sem verkefni eru skilgreind og tímasett en áætlunin tekur til áranna 2018-2020. Meðal verkefna sem ráðast á í er uppgröftur hinna frægu Nautahella Sæmundar, kortlagning gjóskulaga  auk margháttaðra rannsókna á Oddastað með hinum fjölbreyttu aðferðum fornleifafræðinnar, kjarnaborun, ómsjármælingar, segul- og viðnámsmælingar. Þá verður mikil áhersla lögð á fræðslu- og kynningu samhliða rannsóknum og þannig er áætlað að koma á fót s.k. Fornleifaskóla unga fólksins í Odda. Þess má geta að Oddafélagið hlaut fjárstyrki frá Samtökum Sunnlenskra Sveitarfélaga og  Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra til þess að vinna áætlunina sem gáfu verkefninu byr undir báða vængi. Kristborg kynnti áætlunina fyrir stjórn Oddafélagsins og sóknarnefnd Oddakirkju á dögunum og er mikil tilhlökkun sem fylgir því að hrinda henni í framkvæmd. Áður en til þess kemur þarf þó að vinna áfram að fjármögnun – nú er að einhenda sér í þau mál en áætlunin gerir ráð fyrir að hefjast handa með rannsóknir næsta vor.

Matthías og sandstormarnir

brauðið erfitt erErindi Árna Bragasonar landgræðslustjóra á Oddastefnu 2017 er nú aðgengilegt á heimasíðu Oddafélagsins. Erindið nefnir Árni „Brauðið erfitt er – Matthías og sandstormarnir“. Í því rekur hann m.a. þá ótrúlegu þróun sem orðið hefur í gróðurfari á Rangárvöllum frá því að þar geysuðu sandstormar í tíð séra Matthíasar undir lok 19 aldar og til dagsins í dag þegar sveitarfélagið Rangárþing ytra er í þann mund að verða mesta skógræktarsveitarfélag landsins. Árni segir m.a. frá þeim gríðarlegu áhrifum sem eldvirkni á svæðinu hefur haft á líf og tilveru í gegnum tíðina. Hann segir frá friðlandinu í Oddaflóðum og hinni mögnuðu Safamýri sem gaf allt að 1.000 kýrfóður á ári hverju og munaði um minna á erfiðum tímum.

Samið við Fornleifastofnun

fornleifastofnun_335kb

Kristborg Þórsdóttir og Ágúst Sigurðsson handsöluðu samninginn.

Oddafélagið gekk í dag frá samningi við Fornleifastofnun um gerð ítarlegrar rannsóknaráætlunar fyrir Oddarannsóknir. Áætlunin er hluti af verkefninu „Oddi á Rangárvöllum – Miðstöð menningar á ný“ sem Oddafélagið stendur fyrir í víðtækri samvinnu við marga aðila. Gert er ráð fyrir að rannsóknaráætlunin sem nær til næstu þriggja ára verði tilbúin fyrir 1. september n.k. Það er Kristborg Þórsdóttir fornleifafræðingur sem mun leiða verkefnið.

Friðrik nýr í stjórn

Friðrik-Erlings-sv_portrettFriðrik Erlingsson rithöfundur og tónlistarmaður var kosinn í stjórn Oddafélagsins á aðalfundi í gær. Það er mikið fagnaðarefni fyrir félagið að fá svo öflugan liðsmann nú þegar móta þarf hugmyndir um eflingu Oddastaðar og undirbúa það mikilvæga skref að hrinda þeim í framkvæmd. Friðrik er boðinn innilega velkominn í hópinn.

Tónninn settur

Oddastefna 2017 - tónninn sleginnSigríður Aðalsteinsdóttir óperusöngkona og skólastjóri Tónlistarskóla Rangæinga setti tóninn við upphaf Oddastefnu á Hellu í gær með hrífandi söng við undirleik Helgu Bryndísar Magnúsdóttur. Oddastefna heppnaðist gríðarlega vel en fyrir hádegi var haldinn aðalfundur félagsins þar sem staðfestar voru endurskoðaðar samþykktir fyrir félagið og kosin ný stjórn en úr stjórninni gekk að þessu sinni Drífa Hjartardóttir eftir langa og farsæla þjónustu og inn kom í hennar stað Friðrik Erlingsson rithöfundur. Oddastefna 2017 - KristínÁ Oddastefnu voru flutt þrjú erindi að þessu sinni. Kristín Huld Sigurðardóttir forstöðumaður Minjastofnunar flutti erindi með Ugga Ævarssyni minjaverði Suðurlands sem þau nefndu „Minjarnar og höfuðbólin“ og fjallaði þar m.a. um þær aðferðir sem notaðar eru við fornleifarannsóknir í dag en mikil framþróun hefur orðið hvað tækni varðar s.s. í notkun á jarðsjá og dróna í viðbót við hefðbundinn upgröft og borkjarnagreiningar. Þá flutti Árni Bragason landgræðslustjóri erindið „Matthías og sandstormarnir“ og fjallaði m.a. um þær gríðarlegu breytingar sem orðið hafa á gróðurfari á Rangárvöllum frá tímum 20170527_134725Matthías Jochumssonar sem var prestur í Odda árin 1881-1886 þegar mikil landeyðing varð á þessu svæði. Að lokum kynntu Ágúst Sigurðsson formaður Oddafélagsins, Eiríkur Vilhelm Sigurðarson markaðs- og kynningarfulltrúi Rangárþings ytra og Kristborg Þórsdóttir fornleifafræðingur á Fornleifastofnun drög að verkefnaáætluninni „Oddi-Miðstöð menningar á ný“ sem er afrakstur undirbúningsvinnu í víðtækri samvinnu margra aðila undir forystu Oddafélagsins. Það eru spennandi tímar framundan fyrir Odda en á ráðstefnunni kom fram að Oddafélagið í samráði við Minjastofnun er nú að ganga frá samningi við Fornleifastofnun um frekari undirbúning að Oddarannsóknum. Rannsóknir eru ráðgerðar á Oddastað en einnig er horft til litlu hjáleiganna „kotin Odda hjá“ og Sæmundarhellanna eða s.k. Nautahella sem taldir eru geta sagt mikla sögu. Þá er hugmyndin að byggja upp fræðslustarf samhliða rannsóknunum og m.a. litið til samstarfs við skólanna í héraðinu í þeim efnum.

Oddastefna 2017 - drífa

Drífa Hjartardóttir hefur verið í stjórn Oddafélagsins frá upphafi.

Aðalfundur 2017

Aðalfundur Oddafélagsins verður haldinn í Safnaðarheimili Oddasóknar laugardaginn 27 maí n.k. og hefst kl. 11:00. Hefðbundin aðalfundarstörf en einnig er vakin athygli á endurskoðuðum samþykktum félagsins sem fjalla þarf um á aðalfundinum og finna má hér: Samþykktir fyrir Oddafélagið – endurskoðun 2017.

DAGSKRÁ AÐALFUNDAR 2017

  1. Skýrsla stjórnar
  2. Reikningar félagsins.
  3. Umræður um skýrslu og reikninga og þeir bornir upp til samþykktar.
  4. Endurskoðaðar samþykktir félagsins.
  5. Kosningar.
  6. Ákvörðun um árgjald.
  7. Önnur mál.