Færslusafn fyrir flokkinn: Ýmsar fréttir

Sæmundur og Snorri: Grein Björns Bjarnasonar um rannsóknarverkefnið Ritmenning íslenskra miðalda

„Framgangur ritmenningarverkefnisins ber vott um ánægjulega grósku í rannsóknum og áhuga á menningarlegri gullöld miðalda hér á landi.“

Í tilefni af því að árið 2019 voru 75 ár liðin frá stofnun lýðveldis á Íslandi var stofnað til fimm ára átaksverkefnis um þverfaglegar rannsóknir á ritmenningu íslenskra miðalda. Ríkisstjórnin myndaði sjóð til að styrkja rannsóknir á þessu sviði, m.a. með því að efla rannsóknir á heimildum um ritunarstaði miðaldahandrita á Íslandi og þá sérstaklega á þeim lærdómsmiðstöðvum og klaustrum þar sem ritmenning blómstraði.

Fyrstu styrkir voru veittir úr sjóðnum í fyrra. Að styrkveitingunni kemur sérstök úthlutunarnefnd en Snorrastofa í Reykholti annast umsýslu vegna verkefnisins. Hún auglýsti nýlega eftir umsóknum vegna styrkja ársins 2021 en í auglýsingu vegna þeirra segir að áætlað árlegt ráðstöfunarfé sjóðsins sé 35 m.kr. á tímabilinu 2020 til 2024.

Verkefnið skiptist í tvo verkþætti: Annars vegar að rannsaka menningarminjar og umhverfi tengt ritmenningarstöðum miðalda og hins vegar handrita- og bókmenningu þeirra.

Í fyrra runnu stærstu styrkirnir, 7 m. kr. hver styrkur, til rannsókna á þremur stöðum, styrkþegar voru: Elín Ósk Heiðarsdóttir fyrir hönd Fornleifastofnunar Íslands vegna verkefnisins Staðarhóll í Dölum: Höfuðból í minjum, sögu og sagnaritun, Steinunn Kristjánsdóttir fyrir hönd Háskóla Ísland, vegna verkefnisins Þingeyraklaustur: Hjarta ritmenningar í fjórar aldir, og Helgi Þorláksson fyrir hönd Oddafélagsins vegna verkefnisins Oddarannsóknin.

Snorrastofa hefur umsýslu verkefnisins vegna þess að þar hefur á undanförnum aldarfjórðungi verið unnið að því að festa menningarafrek miðalda í sessi með því að tengja þau sögustað, Reykholti í Borgarfirði, og minningu Snorra Sturlusonar. Starf Snorrastofu var forsenda Reykholtsverkefnisins sem reist er á fornleifarannsóknum og margvíslegum öðrum rannsóknum til að leiða þennan forna stað inn í samtíðina og gefa honum nýtt gildi í krafti fortíðar. Við alla uppbyggingu höfðu sr. Geir Waage og samstarfsmenn hans allt frumkvæði, án sambýlis við Reykholtssöfnuð og sóknarprest hefði Snorrastofa aldrei náð að dafna.

Stofan stendur ekki aðeins að rannsóknum og umsýslu á innlendum vettvangi heldur einnig alþjóðlegum. Forn trúarbrögð Norðursins er verkefni sem birtist í sjö binda verki um norrænu goðafræðina á ensku. Bergur Þorgeirsson, forstöðumaður Snorrastofu, hefur í 12 ár haldið utan um þetta mikla og metnaðarfulla verkefni og aflað til þess fjár. Rannsóknasjóður í Ástralíu styrkti það til dæmis veglega.

Þess var minnst 1. desember 2020 að þann dag árið 1990 var Oddafélagið stofnað. Í Oddafélaginu eru áhugamenn um endurreisn menningar- og fræðaseturs að Odda á Rangárvöllum. Tilgangur félagsins er að gera Odda að miðstöð menningar á nýjan leik með áherslu á sögu staðarins og mikilvægi hans um aldir.

Oddafélagið hefur ráðið Friðrik Erlingsson rithöfund sem verkefnastjóra félagsins.

Í vikunni birtist viðtal við Friðrik hér í blaðinu. Hann sagði að Oddafélagið stefndi að því að byggja nýja Oddakirkju og menningar- og fræðasetrið Sæmundarstofu í Odda á Rangárvöllum. Mannvirkin og starfsemi í þeim yrði menningarmiðja Suðurlands. Þar yrði rúmlega þúsund ára sögu og mannlífs staðarins gerð skil. Aðeins eru tólf ár þar til 900 ára ártíðar Sæmundar fróða, frægasta sonar Odda, verður minnst.

Sæmundur fróði er sveipaður dulúð áhrifamanns á bak við tjöldin. Margir hafa rýnt í sögu hans og nú hefur Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri gefið út að næsta bók hans verði um Sæmund fróða. Friðrik Erlingsson segir að víða megi sjá fingraför Sæmundar.

Framgangur ritmenningarverkefnisins ber vott um ánægjulega grósku í rannsóknum og áhuga á menningarlegri gullöld miðalda hér á landi. Víðtækur almennur áhugi á miðaldamenningunni birtist meðal annars í fjölmenni sem sækir fyrirlestra á vegum Miðaldastofu Háskóla Íslands.

Gildi þess að geta tengt menningarafrekin við staði á borð við Reykholt og Odda er ómetanlegt og stuðlar að almennri kynningu og vitund um rætur menningarinnar og erindi hennar við samtímann.

Á líðandi stund er til dæmis fráleitt að líta þannig á að fræði Snorra Sturlusonar höfði aðeins til þeirra sem horfa til fortíðar. Vitneskja um efni þeirra auðveldar skilning á verkum samtíðar.

Krúnuleikarnir, Game of Thrones, runnu sitt skeið sem vinsæl og heimsfræg þáttaröð í sjónvarpi á árinu 2019. Þeir lifa þó enn í hugum margra. Skipulagðar eru ferðir um Ísland til að sjá hvar sum atriði í þáttaröðinni voru kvikmynduð. Hitt væri ekki síður merkilegt að kynna þræði sögunnar aftur til Snorra Sturlusonar á nútímalegri sýningu.

Snorrastofa og Háskóli Íslands ýttu árið 2016 úr vör alþjóðlegu rannsóknarverkefni: Heimskringla og framhaldslíf Snorra Sturlusonar. Undir merkjum þess er leitast við að kortleggja hvernig verk Snorra lifa í bókmenntaverkum, tónverkum, teikni- og myndlist og kvikmyndum allt fram á þennan dag þegar dreifing þeirra eykst en minnkar ekki.

Snorri Sturluson ólst upp hjá höfðingjum í Odda og hlaut þar menntun og menningu í arf frá Sæmundi fróða. Að endurvekja vitundina um afreksmenn íslenskrar menningar í alþjóðlegum straumum miðalda er verðugt og gefandi verkefni fyrir samtímann.

Björn Bjarnason bjorn@bjorn.is

Fréttapistill 1. desember 2020

Í dag, 1. desember, er Oddafélagið 30 ára, stofnað á þessum degi árið 1990. Vegna allra þeirra takmarkana sem nú eru í gildi hafa engar fagnaðarsamkomur verið skipulagðar, en við vonum að á nýju ári gefist okkur tækifæri til þess, og þá helst á Oddastefnu næsta sumars í byrjun júlí. Haustráðstefnu Oddarannsóknarinnar hefur verið frestað af sömu ástæðu.

Við höfum nú kynnt framtíðarstefnu Oddafélagsins fyrir sveitarstjórnum sveitarfélaganna í Rangárvallasýslu og fengið jákvæð og hvetjandi viðbrögð. Þá hefur framtíðarstefnan að sjálfsögðu verið kynnt fyrir sóknarnefnd Oddakirkju sem hefur fagnað þessu framtaki okkar og styður af heilum hug. Þá er unnið að því að kynna hugmyndirnar víðar og áætlað að halda veglegan kynningarfund í héraði um leið og færi gefast er samkomutakmörkunum léttir. Verkefnið hefur jafnframt verið kynnt fyrir  alþingismönnum og einnig stuttlega fyrir ríkisstjórn og biskupi en áætlanir eru um frekari kynningar og samráð á þeim vettvangi. Merki fyrir félagið er í undirbúningi, sem og tillögur að nýrri heimasíðu. Það er ánægjulegt að á þessum tímamótum í félaginu skuli svo margt áhugavert og spennandi vera í farvatninu, þá fyrst og fremst Oddarannsóknin í samstarfi við RÍM verkefni ríkistjórnarinnar og svo undirbúningur að uppbyggingu menningar- og fræðaseturs í nafni Sæmundar Sigfússonar. 

Á myndinni hér neðar má sjá forystufólk Oddarannasóknarinnar, þau Helga Þorláksson, Kristborgu Þórsdóttur, Ármann Jakobsson, Egil Erlendsson og Sverri Jakobsson. Þau stýra hvert sínu verkefni innan rannsóknarinnar og bindum við miklar vonir við að með slíkt úrvalsfólk í forystu muni góður árangur nást á næstu misserum og árum við að skerpa skilning okkar á sögu Odda og greina líf og starf þess fólks sem staðinn bjó á sinni tíð.

Þegar hafa meistaranemar tengst inn á einstök verkefni rannsóknarinnar og má þar nefna m.a. Ragnhildi Önnu Kjartansdóttur sem Sverrir leiðbeinir og hinn portúgalska Miguel Andrade sem er undir handleiðslu Ármanns. Í lok þessarar viku er fyrirhugaður samráðsfundur Oddarannsóknarinnar og stjórnar Oddafélagsins þar sem verður farið yfir stöðu mála en málþing og ráðstefnur verða að bíða betri tíma eins og við vitum.

Sú ánægjulega þróun hefur orðið nú í sumar og haust að Oddafélögum hefur fjölgað allnokkuð og eru félagar nú orðnir 186. Við viljum nota tækifærið og þakka félagsmönnum fyrir að bregðast almennt hratt og vel við því að greiða árgjaldið góða og hófstillta. 

Gaman er að minnast þess að undir lok júlímánuðar flutti Friðrik Erlingsson rithöfundur og Oddafélagi gríðarlega vel sótt erindi um Fingraför Sæmundar fróða. Erindið flutti hann í Hlöðunni að Kvoslæk í Fljótshlíð sem þau Björn Bjarnason og Rut Ingólfsdóttir standa að með miklum glæsibrag. Þess má geta að Björn og Rut hlutu Menningarverðlaun Suðurlands nú í haust fyrir sitt góða framtak með Hlöðuna.

Í viðtali við Dr. Ásgeir Jónsson, Seðlabankastjóra og Oddafélaga, í Morgunblaðinu þann 27. nóvember, upplýsti hann að næsta bók hans yrði um Sæmund Sigfússon, en nú í haust kom út eftir hann bókin Uppreisn Jóns Arasonar. Um leið og við hvetjum félagsmenn til að verða sér úti um bók Ásgeirs um Jón Arason, bíðum við ekki síður spennt eftir bók hans um Sæmund Sigfússon, enda er það markmið félagsins að draga fram í dagsljósið manninn á bakvið þjóðsöguna og styðja hvern þann sem vinnur í þeim anda.

Áfram er unnið að því að bæta aðstöðu Oddafélagsins í Ekru en segja má að sú aðstaða hafi hlotið fyrstu vígslu nú síðsumars þegar Kristborg fornleifafræðingur mætti á svæðið með félögum sínum. Þau nýttu aðstöðuna á meðan á dvölinni stóð og létu vel af vistinni. Þessi aðstaða á eftir að nýtast okkur gríðarlega vel í því rannsókna- og uppbyggingastarfi sem framundan er í Odda og gefur marga möguleika. Eitt af markmiðum sumarsins hjá Kristborgu og félögum var að láta vinna þrívíddarlíkan af hellinum í Odda. Þau fengu til liðs við sig fyrirtækið Punktaský til verksins og útkoman var hreint magnað myndband sem sýnir inn í hellinn og tóftina framan við hann. Líklega sýnishorn af þeirri tækni sem verður nýtt þegar kemur að því að segja sögu Odda á næstu árum.

Oddafélagið hefur fengið til liðs við sig Sigríði Sigþórsdóttir arkítekt til að hefja undirbúning að fyrstu skrefum hugmyndavinnu varðandi mögulega uppbyggingu í Odda. Það er nauðsynlegt að hafa fagmann með sér allt frá fyrstu skrefum og Sigríður hefur mikla reynslu af slíkum undirbúningi og þekkt langt út fyrir landsteinana af verkum sínum í gegnum tíðina. Meira af því síðar. 

Kvæði séra Matthíasar Jochumssonar prests í Odda – Gammabrekka – er okkur Oddafélögum ávallt innblástur. Í kvæðinu sem birtist í Eimreiðinni 1902 fer hann yfir sögu Odda og íbúa hans og horfir einnig til framtíðar. Þar má velja þau erindi sem henta tilefninu og það má til sanns vegar færa að Oddi sé nú á tímamótum og hvatning skáldsins því við hæfi:

Lát hljóminn heyra, gígja, til heiðurs Oddastað!

Og yngi öldin nýja þau orð, sem skáldið kvað.

En brostu, Brekkan kæra, og ber af hverjum hól

Á meðan hönd menn hræra og Heklu gyllir sól!

Hvernig er það annars – þurfa ekki tónskáld að finna gott lag við þetta kvæði þannig að kórar megi láta hljóma á næstu Oddahátíð?

Bestu jólakveðjur og nýársóskir frá stjórn Oddafélagsins

Ágúst Sigurðsson

Vinir ævilangt – ævi og vinátta Sæmundar fróða og Jóns helga

Þór Jakobsson, fyrrverandi formaður Oddafélagsins, hefur samið og myndskreytt unglingasögu um æskuár Sæmundar og vináttu hans við Jón Ögmundsson frá Breiðabólstað í Fljótshlíð, og því er við hæfi að birta þá sögu á heimasíðunni í tilefni af afmæli félagsins, um leið og við óskum Þór til hamingju og þökkum fyrir þessa skemmtilegu sögu. Smellið hér til að kalla fram söguna.

Uppbygging mennningar- og fræðaseturs að Odda – Sæmundarstofu

Stjórn Oddafélagsins hefur sent sveitarstjórnum í Rangárvallasýslu drög að framtíðarstefnu um uppbyggingu Menningar- og fræðaseturs að Odda – Sæmundarstofu, til skoðunar. Jafnframt var óskað eftir fundi með hverri sveitarstjórn til að kynna þessar hugmyndir frekar. Þegar hefur verið fundað með sveitarstjórn Rangárþings ytra sem tók mjög vel í tillögurnar og hvatti Oddafélagið til dáða. Á næstunni er stefnt að því að kynna hugmyndirnar fyrir sveitarstjórnum Rangárþings eystra og Ásahrepps. Drög að framtíðarstefnunni sem nú er til kynningar má finna hér

Í bréfi stjórnar Oddafélagsins til sveitarstjórnanna segir m.a. „Ef litið er til sögu okkar þá er Oddi svo sannarlega merkasti staður héraðsins og höfuðból okkar Rangæinga. Oddi er raunar eitt sögufrægasta höfuðból Íslands og á svo sannarlega skilið að við sýnum staðnum og sögu hans ræktarsemi. Nú eru Oddarannsóknir loksins orðnar að veruleika og tímabært að huga að næstu skrefum – og „vekja úr mold hina sögustóru fold“ líkt og Matthías Jochumsson prestur í Odda lét sig dreyma um á sinni tíð.“

Aðalfundur Oddafélagsins

Aðalfundur Oddafélagsins 2019 og 2020 verður haldinn í Ekru mánudaginn 29. Júní 2020 og hefst kl. 17:00. Hefðbundin aðalfundarstörf.

DAGSKRÁ AÐALFUNDAR

  1. Skýrsla stjórnar
  2. Reikningar félagsins.
  3. Umræður um skýrslu og reikninga og þeir bornir upp til samþykktar.
  4. Kosningar.
  5. Ákvörðun um árgjald.
  6. Önnur mál.

Oddarannsóknin fær byr undir vængi

Frá athöfninni í Reykholti í gær – styrkþegar ásamt Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra og Birni Bjarnasyni formanni stjórnar Snorrastofu.

Þau tímamót urðu í gær að Oddarannsóknin hlaut rannsóknarstyrk úr s.k. RÍM sjóði ríkisstjórnarinnar við hátíðlega athöfn í Reykholti. Helgi Þorláksson prófessor sem fer fyrir rannsókninni fyrir hönd Oddafélagsins tók við 7 mkr styrk fyrir þetta ár úr hendi Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra. Þetta skiptir miklu máli og nú verður hægt að hefjast handa við rannsóknir á Fornleifum, Umhverfi og mannvist og Lærdóms-, kirkju og valdamiðstöðinni í Odda. Þetta eru frábærar fréttir – til hamingju Oddi – þinn tími er kominn!

Fréttapistill desember 2019

Fbr2019 a

Kæri Oddafélagi,

Liðið ár hefur verið tími undirbúnings hjá okkur í Oddafélaginu en framkvæmdir og uppákomur hafa heldur verið með rólegra móti. Góðir hlutir gerast hægt stendur einhversstaðar og þolinmæði þrautir vinnur. Það er þó engu að síður þannig að margt hefur þokast í rétta átt þetta árið og vonir standa svo sannarlega til að frekari tíðinda verði að vænta af starfi Oddafélagins á því ári sem nú gengur í garð.

Oddarannsóknin

Það voru vissulega vonbrigði að umsókn Fornleifastofnunar um rannsóknarstyrk til Oddarannsókna 2018 og aftur 2019 hlaut ekki brautargengi hjá stjórn Minjasjóðs. Engu að síður ákvað Oddafélagið í samráði við Fornleifastofnun að hefjast handa við fyrsta hluta verkefnaáætlunarinnar í byrjun júní 2018 með hreint ótrúlegum árangri eins og fram hefur komið. En áfram þarf að halda og nauðsynlegt er að fá frekari fjármuni til verksins þannig að taka megi þráðinn upp að nýju og ljúka þeirri áætlun sem liggur fyrir.

Þau ánægjulegu tíðindi urðu nú síðsumars 2019 að ríkisstjórn Íslands ákvað að í tilefni af 75 ára afmæli lýðveldisins yrði sett á laggirnar átaksverkefni um ritmenningu miðalda og ákvað ríkisstjórnin að leggja þessu verkefni til 35 mkr á ári næstu 5 árin eða alls 175 mkr. Þetta er samstarfsverkefni forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Snorrastofu og snýr að þverfaglegum rannsóknum á ritmenningu íslenskra miðalda. Með átaksverkefninu leggja samstarfsaðilar áherslu á að efla rannsóknir sem tengjast þeim stöðum á Íslandi þar sem ritmenning blómstraði á miðöldum og þar er Oddi á Rangárvöllum svo sannarlega í fremsta flokki auk þess sem rannsóknir í Odda eru á algjörum byrjunarreit og þörfin því geysileg. Það er því ljóst að nú hljóta að breytast allar forsendur til fjármögnunar Oddarannsókna en fyrsta úthlutun mun fara fram fljótlega á árinu 2020.

 

Fbr2019 b

Fornleifaskóli unga fólksins

Vorið 2019 var fornleifaskóli unga fólksins haldinn öðru sinni í Odda en um er að ræða samstarf Oddarannsóknarinnar og allra grunnskóla í Rangárvallasýslu. Þetta vorið komu nemendur með kennurum sínum úr Grunnskólanum á Hvolsvelli og Laugalandi en áður hafði sjöundi bekkur Helluskóla riðið á vaðið. Áfram verður verkefnið þróað stig af stigi, lært af reynslunni og passað upp á að saman fari mikilvæg og áhugaverð fræðsla og góð samvera. Það voru þær Kristborg Þórsdóttir, Hulda Björk Guðmundsdóttir og Lilja Björk Pálsdóttir frá Fornleifastofnun sem héldu utan um kennsluna í góðri samvinnu við umsjónarkennara skólanna.

„Fróðasetur í Odda“

Í haust og vetur er unnið að endurbótum á húsinu í Ekru, skipt um alla glugga og hurðir, húsið klætt að utan með einangrun og standandi timburklæðningu, rafhitun endurnýjuð, skipt um innréttingar í eldhúsi, málað, lagað umhverfis húsið og útbúið plan ofl. Þá er áætlað að skipta um þakjárn næsta sumar og smíða pall við húsið. Þá verður lagfærð útiskemma sem ætlunin er að nýta sem grófa geymslu fyrir starfsemina og fornleifarannsóknirnar. Þá þarf að reisa varanlegra skjól fyrir hellismunnann sem grafinn var upp síðasta sumar til að verja betur minjarnar. Allt er þetta framkvæmt með ítrustu hagkvæmni að leiðarljósi en fjárstyrkur frá Héraðsnefnd Rangæinga er lykillinn að þessum framkvæmdum Oddafélagsins í samráði við sveitarfélagið Rangárþing ytra. Með þessu skapast hin þokkalegasta aðstaða og bækistöð fyrir hin brýnu verkefni sem bíða okkar í Odda á næstu árum.

Önnur mikilvæg mál

Ekki var haldin Oddahátíð þetta sumarið en sú fyrsta var haldin þann 1. júli 2018. Til að byrja með er áætlað að veglegar Oddahátíðir líkt og á síðasta ári verði haldnar annað hvert ár og er stefnan að halda næstu Oddahátíð sumarið 2020. Nú hyllir undir að ný samgönguleið verði tilbúin sem liggur hjá garði í Odda og tengir saman sveitir. Framkvæmdum við svokallaða Oddabrú lauk nú rétt fyrir jól og verður það að teljast mikilvægur áfangi til að auka öryggi íbúa og bæta samgöngur í héraði. Risin er falleg og vel smíðuð brú og nú er næsta skref að sæta færis og flytja vatnsfarveginn undir hina nýju brú og ljúka við vegtengingar beggja megin. Ef vel viðrar ætti þessu að ljúka á næstu vikum og þá er þess ekki langt að bíða að hægt verði að hleypa umferð á þessa nýju leið. Það er sveitarfélagið Rangárþing ytra sem stendur að þessum vegabótum í góðu samstarfi við Vegagerðina. Mikilvæg hliðaráhrif þessara góðu framkvæmda er að höfuðbólið Oddi á Rangárvöllum kemst nú í alfaraleið á nýjan leik – Þjóðleiðin um Odda verður á vissan hátt endurvakin.

Oddafélagið stefnir að líflegri starfsemi árið 2020 þar sem Oddarannsóknir halda áfram, fornleifaskólinn heldur sínu striki og aðstaðan í Ekru tekur á sig mynd. Þá er stefnt að því að halda veglega Oddahátíð næsta sumar í Odda og kannski er þá komin hefð á að slík hátíð sé annað hvert ár hið minnsta.

Að lokum vil ég þakka öllum sem lagt hafa verkefnum Oddafélagsins lið á árinu og vonast til að sjá ykkur sem allra flest á Oddahátíð í sumar.

Bestu kveðjur og nýarsóskir

Ágúst Sigurðsson

 

 

 

Saga Oddastaðar – endurútgefin

Saga Oddastaðar forsíða

Prentsmiðja GuðjónsÓ hefur endurútgefið bókina Odda á Rangárvöllum eftir Vigfús Guðmundsson frá Keldum. Þetta er lofsvert framtak hjá Ólafi Stolzenwald prentsmiðjustjóra og öflugum liðsmanni Oddafélagsins en bókin var ófáanleg. Vigfús Guðmundsson var hógvær maður og baðst hálfgert afsökunar á því að hann ómenntaður maðurinn væri að grúska þetta í gömlum heimildum og kirkjubókum og segja söguna allt frá 10.öld. Hann náði í tómstundum sínum með elju og dugnaði að taka saman bækur sem telja má stórmerkilegar heimildir í dag.  Þar má nefna sögu Odda, Keldna og Breiðabólsstaðar.  Þessar bækur voru gefnar út af Guðjóni Ó. Guðjónssyni prentara og prentsmiðjueiganda og því skemmtilegt að eftirmenn hans í GuðjónÓ – vistvænni prentsmiðju – skuli endurútgefa bækurnar um Odda og Keldur. Bókin er m.a. til sölu hjá Oddafélaginu á afar sanngjörnu verði og félagsmenn geta eignast bókina með verulegum afslætti.